UM OKKUR
Á bakvið Hrímu, Rökkvu, Jöklu, Krapa, Frera, Hélu, Silfru, Kul, Kalda, (Polar) og Frosta er ein stór fjölskylda, Olga, Kalli, Tara, Alla, Jóhann og Jökull.
Hundarnir eru líf okkar og yndi og helsta áhugamál. Þeir eru fyrst og fremst heimilishundar en við þjálfum þá allan ársins hring, sama hvernig viðrar. Við höfum mjög gaman af sleðahundasportinu og reynum að hafa þjálfunina sem fjölbreyttasta. Hvort sem við erum á sleða, gönguskíðum, hjólum, scooter, línuskautum, í göngum, á skokkinu eða lausagöngum, þá er markmiðið alltaf að bæði hundar og menn hafi gaman af. Hundar sem eru vel hreyfðir og fá gott atlæti eru góðir heimilishundar.
Við tökum virkan þátt í sleðahundakeppnum sem haldnar eru á landinu, bæði fyrir sunnan og norðan og erum einnig dugleg að mæta á sýningar hjá HRFÍ. Það er fátt skemmtilegra en að ná því besta út úr hundunum sínum á báðum vígstöðvum. Það er óhætt að segja að þetta sé skemmtilegur lífstíll sem heldur okkur við efnið og veitir okkur ómælda gleði.
Við notum eingöngu fyrstu einkunnar hunda í ræktunina okkar. Við leggjum mikla áherslu á góða skapgerð og fallega líkamsbyggingu, en fyrst og fremst viljum við rækta heilbrigða hunda, sem eru góðir fjölskyldu- og sleðahundar.
Við notum aðeins gæða fóður fyrir okkar hunda. Við teljum það mjög mikilvægt atriði að hundarnir nærist vel. Það getur skipt sköpum í keppnum og á sýningum að hundarnir séu í sínu besta formi líkamlega.
Við erum fullgildir meðlimir í Hundaræktarfélagi Íslands og gotin okkar uppfylla skilyrði þess sem og Huskydeildar HRFÍ. Einnig erum við meðlimir í Sleðahundaklúbbi Íslands.
Upplýsingar er hægt að nálgast í síma 865-3110 og 777-0077 eða með því að senda tölvupóst á husky@huskyiceland.is